Stakir tannplantar
Þegar tönn er dregin mælum við með því að fólk kynni sér tannplanta og hvað það felur í sér. Fyrir nokkrum árum hefði eflaust þótt sjálfsagt að setja brú, þar sem aðliggjandi tennur virka sem brúarstólpar og halda upp millilið sem kemur í stað tannarinnar sem var dregin. Þegar þessar aðliggjandi tennur eru heilar er ansi fúlt að þurfa að fórna þeim fyrir tönnina sem var dregin. Þá komum við að tannplöntunum, ef einn slíkur er græddur í tannlausa bilið þarf ekki að snerta við öðrum tönnum.
Tannplantameðferð tekur um það bil 6 mánuði. Eftir að tönn hefur verið dregin er algengur biðtími þrír mánuðir á meðan beinið grær nægilega til að hægt sé að græða plantann í það. Tannplantinn þarf síðan að gróa í um 3 mánuði og þá er hægt að undirbúa hann fyrir krónusmíði.
Hér fyrir neðan má sjá útskýringu á ferlinu sem fer í gang frá því tönn er dregin þar til tannplantinn er tilbúinn fyrir krónusmíði.
Hér er rótfyllt framtönn sem þurfti að draga. Áður en tönnin var dregin var tekið mát af tönnum sjúklingsins og útbúinn bráðabirgðapartur sem sjúklingur var með á meðan meðferð stóð, hann fékk hann afhentan um leið og tönnin var dregin.
Bráðabirgðaparturinn heldur útliti sjúklings svo ekki sjáist tannlaust bil, en auk þess hefur hann það hlutverk að halda bilinu og móta tannholdið.
Eftir að beinið hefur fengið að gróa í ákveðinn tíma, sem er misjafn eftir hverju tilfelli en getur verið frá 6 vikum til 3 mánuðir, kemur sjúklingurinn á stofuna og tekin er röntgenmynd til að sjá hvernig staðan er og hvort tími sé kominn á ísetningu tannplantans. Í þessum tíma gefum við sjúkling tíma í aðgerðina og förum yfir leiðbeiningar fyrir hana.
Hér má sjá röntgenmynd af tannplantnum eftir ísetninguna.
Þegar tannplantinn hefur fengið tíma til að gróa kemur sjúklingur í nokkurs konar lokatíma, þá er tekin röntgenmynd af, holdið er opnað inn að plantanum og stærri lokskrúfa sett sem nær upp fyrir tannholdsbrún. Með þessu móti er verið að undirbúa plantann fyrir máttöku svo hægt sé að smíða krónu.
Hér má sjá að bráðabirgðatönn sem útbúin var fyrir þennan tiltekna sjúkling til þess að hægt væri að móta tannholdið betur í kringum svæðið. En þegar þarna er komið er tannplantinn í raun tilbúinn fyrir krónusmíði.