1) Aðgerðardaginn :

  • Eftir aðgerð er best að vera á fljótandi fæði t.d. vatn, ávaxtasafar, grænmetissafar, mjólk, kakó, súrmjólk, skyrdrykkir, jógúrt, ís, næringardrykkir, boost (ath. að ekki séu hörð korn eins og er t.d. í kiwi og jarðarber), súpur, kaffi, te og allt sem rennur ljúflega í munni en muna að sjóðheita vökva þarf aðeins að kæla niður.

2) Dagurinn eftir:

  •  Daginn eftir er fæðið sem við mælum með á svipuðum nótum t.d. hafragrautur, hrísgrjónagrautur, ávaxtagrautur, stappaðir bananar og kartöflur og blandaðir ávextir af öllum gerðum er tilvalið.

3) Næstu dagar:

  • Næstu daga eða þangað til að saumar eru farnir að eyðast er nauðsynlegt að halda sig við mjúka fæðu og er þá fiskur, soðin hrísgrjón, kartöflur, kartöflustappa og annað grænmeti með, gott ef það er soðið og stappað saman. Brauð er best að borða skorpulaust. Annað sem er ágætt að nefna er t.d. soðin egg, sardínur, túnfiskur, kæfa, niðursneiddur ostur, smurostur, smjör og mjúkar áleggspylsur ofan á skorpulaust brauð.

4) Verkjalyf

  • Hafa þarf í huga að við inntöku á parkódín forte og ýmsum verkjalyfjum sem fólk þarf að taka inn í einhverja daga eftir aðgerðir getur fólk orðið vart við hægðatregðu. Við mælum þess vegna með að reynt sé að sporna við þessu með því að neyta góðrar trefjaríkrar fæðu og drekka vel af vatni, meðan á inntöku þessara verkjalyfja stendur.

Annars hvetjum við ykkur að nota hugmyndaflugið og borða fjölbreytta og holla fæðu á þessum tíma.

Gangi ykkur vel.