Upplýsingar vegna kjálkafærsluaðgerðar

Þessi tegund skurðaðgerðar sem hér er fjallað um kallast kjálkafærsluskurðaðgerð. Kjálkafærsluskurðaðgerðir eru framkvæmdar í svæfingu á Landspítalanum.

Teljir þú þig þarfnast kjálkafærsluaðgerðar er fyrsta skrefið ávallt að bóka skoðunartíma hjá tannréttingarsérfræðingi sem svo vísar þér áfram til munn- og kjálkaskurðlæknis.

Það er nauðsynlegt að skipuleggja þessar skurðaðgerðir mjög vel svo útkoman verði eins góð og mögulegt er.

Tilgangur hennar er að laga:

  • Afstöðu milli tannanna þ.e. laga hvernig þær mætast
  • Afstöðu milli efri og neðri kjálka
  • Andlitsásjónu þína

Fyrir kjálkafærsluaðgerðina:

Það þarf að skipuleggja hvert tilfelli sérstaklega til þess að ákveða hvers konar meðferð hentar einstaka sjúkling. Nokkrar rannsóknir þarf að framkvæma af þínum tannréttingarsérfræðingi, s.s. fullkomna rannsókn á andliti og munnholi, sérstakar röntgenmyndir af andliti, kjálkum og tönnum, mát eru tekin til að búa til módel af tönnum og einnig eru teknar ljósmyndir af andliti og úr munnholi.

Niðurstöður þessarra rannsókna eru síðan notaðar af bæði munn- og kjálkaskurðlækni og tannréttingasérfræðingi til þess að ákveða heppilegustu meðferðina. 

Sjúklingi er á þessu stigi veitt nákvæm útlistun á meðferðarmöguleikum og endanleg ákvörðun um meðferð síðan tekin í samráði við hann og aðstandendur hans, eftir því hvað við á.

Allir sjúklingar þurfa tannréttingarmerðferð fyrir aðgerð til þess að ná tönnum í sem besta stöðu svo að góðar niðurstöður náist úr aðgerðinni. Þetta felur oftast í sér spangir sem eru festar á tennurnar í 12-18 mánuði.

Þegar u.þ.b. ein vika er til aðgerðarinnar er nauðsynlegt að mæta til munn-og kjálkaskurðlæknisins til þess að fara yfir öll smáatriði sem við koma skurðaðgerðinni og ræða þau vandamál sem gætu komið upp. Taka þarf mát af tönnum efri og neðri kjálka til að búa til svokallaða aðgerðarskinnu sem stýrir svo nýju biti.

Sjúklingar mæta á sjúkrahús  að morgni aðgerðardags. Ráðlagt er að taka með sér mjúkan tannbursta til þess að bursta/hreinsa tennurnar eftir aðgerðina. Flestir sjúklingar dveljast á sjúkrahúsi í 1-2 daga.

Eftir kjálkafærsluaðgerðina:

  1. Verkir og óþægindi sem eru mest yfir fyrsta sólarhringinn og verður þeim stjórnað með lyfjagjöf.
  2. Andlitið mun bólgna upp en bólgueyðandi lyf slá oftast á helstu einkennin. Mesta bólgan mun hverfa á fystu 2 vikunum, athugið þó að það getur tekið allt að 6 mánuði fyrir andlit þitt að líta sem best út á ný.
  3. Þú getur fengið dofa, sérstaklega í neðri vör. Þessi einkenni eru venjulega tímabundin og geta staðið yfir í allt að sex mánuði. Í einstaka tilfellum geta þau verið varanleg.
  4. Til að byrja með verður erfitt að kyngja. Það lagast á nokkrum dögum, samfara hjöðnuninni á bólgunni.
  5. Tennur eru festar saman með teygjum eða vírum eftir aðgerð, oftast í u.þ.b 1 viku og aðgerðarskinna er víruð á efri góms tennur. Skinnan er oftast fjarlægð eftir 3 vikur. Nota þarf teygjur eftir aðgerðina í mislangan tíma. Oftast í nokkra mánuði og fer það eftir eðli aðgerðarinnar. Einnig eru teygjur notaðar eftir aðgerðina til þess að aðstoða kjálkavöðvana að venjast nýjum aðstæðum.
  6. Sjúklingar þurfa að vera á fljótandi fæði eftir aðgerð í u.þ.b. 6 vikur og fá þeir næringarráðgjör á spítalanum fyrir útskrift.

Tannréttingameðferðin heldur svo áfram í 6-12 mánuði eftir skurðaðgerðina.

Flestir sjúklingar geta hafið störf s.s. skólasókn og almenna vinnu u.þ.b. 2-3 vikum eftir aðgerðina.

Nákvæmt eftirlit er haft með sjúklingum fyrstu 6-8 vikurnar og svo með lengra millibili t.þ.a. fylgjast með útkomu aðgerðarinnar og ekki síður til að ræða vandamál og spurningar sem kunna að koma upp.